Eldhúsframkvæmdir
Jæja, eldhúsframkvæmdirnar eru komnar á skrið - búið að rífa burt gömlu borðplötuna (og við systkinin bæði með bláa og blóðuga putta fyrir vikið) og sú nýja komin á sinn stað - nema ekki búið að festa hana reyndar og ekki búið að saga úr fyrir vaskinum. Hvað þá að búið sé að tengja vask eða uppþvottavél. En þetta er allt á leiðinni.
Sem minnir mig á að ég þarf að fara að tala við gasmanninn aftur. Hann kom fyrir mánuði, tengdi eldavélina á tíu mínútum, rauk burt og sagði ,,ég kem aftur á morgun og klára þetta" og hefur náttúrlega ekki látið á sér kræla síðan. Hefur reyndar ekki rukkað neitt heldur; ég er að hugsa um hvort ég eigi nokkuð að vera að tala við hann meir því að eldavélin náttúrlega svínvirkar en er ekki viss um að ég vilji endilega hafa gaskútinn á miðju eldhúsgólfinu til langframa í staðinn fyrir að setja hann út á svalir eins og til stendur. Kæmi ekki nógu vel út ef til dæmis Vala Matt vill koma í heimsókn aftur. Svo að líklega á ég eftir að hafa mig upp í að hringja í gasmanninn. Einhverntíma.
Svo ætla ég að lakka eldhúsinnréttinguna. Sennilega græna. Mig hefur alltaf langað í græna eldhúsinnréttingu. Ég valdi líka borðplötuna með tilliti til þess og núna þegar hún er komin á sé ég að ég verð að gera það. Eiginlega ekki seinna en strax. Og grænt er um það bil eini liturinn sem passar.