Eftirhreytur - af ýmsu
Einkasonurinn kom röltandi á dögunum með bókakassa sem hafði fundist heima hjá honum; hafði orðið eftir þar þegar ég flutti í októberlok. Matreiðslubækur, nema hvað. Ítalía og eitthvað austur á Balkanskaga. Ég var nú ekkert búin að sakna þeirra en man reyndar að þegar ég var að raða upp í hillurnar á sínum tíma var ég eitthvað að tauta um að ég ætti víst færri ítalskar bækur en mig hafði minnt, ekki nema svona hillumeter. Eða áttatíu hillusentimetra, reyndar. En þarna kom skýringin; ég átti einmitt eins margar ítalskar bækur og mig minnti.
Ruglaði röðunarsísteminu náttúrlega alveg og sér ekki fyrir endann á því. Þetta kostar einhverjar tilfærslur sem ég hef ekki nennt að fara út í ennþá. Eins gott að það finnist ekki fleiri kassar.
Ég á reyndar ennþá eitt og annað á Kárastígnum sem ég er búin að nöldra í drengnum mánuðum saman að fara nú að koma með. Og annað sem ég veit ekki af, samanber bókakassann.
Aftur á móti hefur náttborðsskúffan mín hvergi komið fram eftir flutningana og enginn kannast við að hafa séð hana. Ég veit ekki alveg hvernig náttborðsskúffa bara hverfur sisvona en það gerðist samt. Eins gott að ég geymdi engin stórkostleg leyndarmál í henni (eða engin sem ég man eftir allavega). Ljósir hárlokkar af einkasyninum og innistæðulaus ávísun sem maður sem ég var einu sinni gift borgaði mér eitthvað með og ég geymdi til minja er það eina sem ég man eftir. Ég sé eftir lokkunum; hitt mátti allt missa sig.