Bjartsýnishjal
Einu sinni komu út samtímis tvær bækur um Póstinn Pál og köttinn Njál. Önnur hét Happadagur og hin Óhappadagur. Sú fyrrnefnda rann út eins og heitar lummur, hin hreyfðist ekki. Nú er að vita hvort ég fæ fleiri lesendur á þetta en færsluna í morgun.
Það semsagt rættist bara úr deginum þegar til kom. Allt í sómanum í vinnunni og á heimleiðinni fór ég svo í Kokku og pantaði mér nýja eldavél sem ég ætti að fá eftir svona sex vikur - einmitt þegar ég er að byrja að elda fyrir nýja matreiðslubók - það verður nú gaman.
Já, og svo byrjaði ég að plana 55 ára afmælið mitt. Ekki ráð nema í tíma sé tekið.
Svo fór ég heim og eldaði kjúklingalæri í rauðvíni með stöppu úr sætum kartöflum handa pabba og mömmu (sem hafa verið hjá mér síðustu dagana) og einkasyninum. Ekki slæmt.
Nú ætla ég í heitt bað og svo er það bara Jericho og rólegheit.