Veisluhelgin
Var að koma frá Selfossi, þar sem árshátíð Eddu var haldin í gærkvöldi á hótelinu og boðið upp á gistingu á eftir. Ég notfærði mér það og hætti á að skilja foreldra mína, sem gista hjá mér þessa dagana, eina eftir í íbúðinni. Gömlu hjúin hafa að vísu látið sig hverfa núna (eru væntanlega í fermingarmessu, þar sem verið er að koma næstelsta dóttursyninum í kristinna manna tölu) en ég sé þess engin merki að þau hafi nýtt tækifærið og haldið brjálað partí, þrátt fyrir umtalsverðar vínbirgðir sem til eru á heimilinu um þessar mundir (gjafir og afmælisleifar til viðbótar við ágætt úrval sem ég átti fyrir). Ég verð greinilega að fara að gera alvöru úr því að drekka meira. Ég veit að ég er alltaf að tala um það en einhvernveginn verður minna úr framkvæmdum.
Hótelherbergið mitt var bara ljómandi þægilegt en ég veit ekki hvort það var tilviljun eða hvort það er vegna þess hve aldurhnigin ég er orðin að það var greinilega ætlað fyrir fatlaða.
Árshátíðin fór annars hið besta fram (allavega framan af en ég fór mjög snemma í háttinn, hálfþreytt eftir dagana á undan) og skemmtiatriðin voru bara skemmtileg þótt dansatriði Heiðars og Kristins standi óneitanlega uppúr. Að vísu skilst mér að kalla hafi þurft Selfosslögregluna út en það var ekki vegna blóðugra slagsmála, heldur veskjahvarfs.
En nú er það fermingarveisla á eftir og þar með lýkur mikilli veisluhelgi. Reyndar er aftur veisla um næstu helgi - en bara ein.