Lasagna
Gagnlega barnið er ekkert yfir sig hrifið af lasagna þótt hún borði það alveg en það er aftur á móti uppáhaldsmatur bróður hennar og einn af uppáhaldsréttum Boltastelpunnar. Og nú er ég hrædd um að það verði oftar á borðum en gagnlega barninu líkar því að Sauðargæran er búin að staglast á því frá því um jól hvað hann langi mikið í lasagna. Af hverju? Jú, hann fékk DVD-disk með Gretti í jólagjöf. Grettir heldur upp á lasagna og drengurinn sér þetta í einhverjum hillingum.
Það er semsagt planið að hafa lasagna í kvöldmatinn (fimmtudagskvöldverði fjölskyldunnar var frestað til föstudags af því að Bístró var að fara í prentun).
Í núverandi ástandi stendur reyndar eldhúsið á Grettisgötunni eldhúsinu á Kárastígnum töluvert að baki en ég hef þó grun um að það henti að vissu leyti betur til pastagerðar. Það kemur væntanlega í ljós þegar ég bý til lasagneplöturnar á eftir.