Brussan
Það eru ekki bara glös sem brotna hjá mér þessa dagana.
Ég þurfti að vakna snemma í morgun til að mæta í Ísland í bítið. Allt í lagi með það nema ég steingleymdi að fara snemma að sofa á móti. Var þess vegna ekki alveg í sambandi þegar ég var að bardúsa í eldhúsinu. Þó held ég að ég hafi ekki klúðrað súpunni að ráði, henni var hrósað bæði af fjölmiðafólki, líkamsræktarfrömuðum og alþingismönnum uppi í Skaftahlíð ... en þegar ég var að ganga frá því sem ég ætlaði að taka með teygði ég mig í litla skál uppi í skáp og tókst að ryðja niður heilum stafla af skálum. Allavega þremur, ég man ekki hvað voru margar í staflanum og nennti ekki að greina sundur glerbrotahrúguna.
Þetta var náttúrlega bara minn alkunni brussugangur, engin álög á skálunum eins og grunur er á með glösin.
Svo þarf ég aftur að vakna snemma í fyrramálið af því að ég á að mæta í eitthvert fjandans sykurþolspróf klukkan átta. Stutt sykurþolspróf, skilst mér. Ég hef farið í langt sykurþolspróf (það var á meðan ég gekk með einkasoninn) og það var ekkert gaman. Maður er látinn drekka stórt glas fullt af sykurleðju og svo kemur einhver á sirka korters fresti og tekur blóðsýni. Minnir mig. Ég vona að þetta stutta sé skárra.
Já, ég kom því semsagt loksins í verk að hringja í heimilislækninn út af blóðprufunni sem ég fór í fyrir jólin. Ég held að ég sé ekki dauðvona en hann sendir mig samt í einhver test.
Ellin, maður.
Ég er samt heldur skárri í hnénu. Geng ekki hölt nema af og til.