Afbrigðilega barnið
Boltastelpan er sérfræðingur í að fá torkennilega sjúkdóma. Eða allavega sjúkdóma sem ekki voru til í mínu ungdæmi. Óeðlilegur lágþrýstingur (mesta furða að blóðið renni í henni stundum), bleikjuhreistur og nú er hún líklega komin með eitthvað sem heitir mycoplasma, eða öðru nafni afbrigðileg lungnabólga.
Ekki að hún sé neitt fárveik. Þvert á móti, hún er á fótum og spilaði meira að segja fótboltaleik í gær - en ætli það verði nú meiri fótbolti hjá henni alveg á næstunni. Allavega ekki fyrr en komin er niðurstaða úr blóðrannsókninni sem hún á að fara í á morgun. Vonandi gengur þeim mæðgunum betur að finna rannsóknarstofu í blóðmeinafræðum en mér þegar ég fór þangað fyrir jólin - sem minnir mig á, ég á alltaf eftir að hringja og fá niðurstöðuna. Reikna samt með að læknirinn minn væri búinn að hringja ef ég væri með einhverja banvæna kvilla.