Laugardagur?
Mér er gjörsamlega ómögulegt að losna við þá tilfinningu að það sé laugardagur í dag. Af því að ég er heima hjá mér en ekki í vinnunni.
Svo þegar ég fór að hugsa málið áttaði ég mig á því að trúlega hef ég ekki verið heima hjá mér á virkum degi síðan í hitteðfyrra; það litla frí sem ég tók í fyrra fór líklega allt í ferðalög.
Ég gat ekki stillt mig um að mæta í vinnuna í gærmorgun þótt ég væri í fríi. En nú er ég heima í heila þrjá daga áður en við förum til Kaupmannahafnar svo að ég verð líklega að setja mig í nýjan gír. Annars fæ ég fráhvarfseinkenni ...
Ég er samt ekki jafnslæm og ég var fyrir tíu-fimmtán árum, þá átti ég til að kvarta yfir því að þessi helvítis frí trufluðu vinnuna hjá manni. Þá hélt ég nefnilega að ég væri ómissandi.