Hafnarheimsóknin
Barnabarnið vill að ég bloggi. Og ætli ég geri það þá ekki bara ...
Jújú, það var gaman í Kaupmannahöfn. Eiginlega mjög gaman, eins og sést á þessum ísútataða unga manni (myndin tekin í Tívolí skömmu fyrir miðnætti á laugardagskvöld). Hann skemmti sér frábærlega í sinni fyrstu Kaupmannahafnarferð. Ég held að systur hans hafi þótt nokkuð gaman líka. Eins og okkur öllum.
Veðrið var náttúrlega frábært. Of heitt ef eitthvað var - en samt ekki, nema þá á nóttunni. Við sváfum með eintóm sængurverin og vorum samt í svitabaði. Stöku rigningarskúrir en þó fáir. Þrumuveðrið sem alltaf var verið að spá kom ekki.
Íbúðin var mjög fín og staðurinn frábær, hún var við Nýhöfnina - bókstaflega, maður sá allar krárnar út um eldhúsgluggann - en samt var staðurinn ótrúlega rólegur. Sameiginlegur inngangur með sjoppu þannig að það var hægt að fara á náttbuxunum að kaupa blað - nú, eða bjór ef því var að skipta. Bakarí/ísbúð í sama húsi og pizzastaður við hliðina - við notfærðum okkur það reyndar ekki. En Nýhafnarkrárnar þeim mun meira. Íbúðin var líka ótrúlega vel búin, ekki síst af eldhúsdóti - ég hefði getað eldað næstum hvað sem var þarna. Einkasonurinn og skylmingastúlkan voru í annarri íbúð við St. Pedersstræde, sem ég held að þau hafi verið bara ánægð með líka.
Annars gerðum við þetta venjulega sem maður gerir í Kaupmannahöfn þegar maður er með börn - fórum í Tívolí og dýragarðinn (Sauðargæran sá ísbjörninn kúka, mjög merkilegt - hann sá líka alvöruúlfa en ég held að hann hafi orðið fyrir smávonbrigðum með þá), siglingu og fleira, röltum um, sátum á útiveitingahúsum, borðuðum ís og pylsur, versluðum smávegis (ég keypti samt bara 7 matreiðslubækur), skoðuðum gosbrunna (sérstakt áhugamál Sauðargærunnar), lágum í leti ...
Sauðargæran fékk prumpublöðruna sína, sem blæs sig upp sjálf og vakti ómælda kátínu. Hann fékk líka fiðrildaháf sem var svo hirtur af honum í vopnaleitinni á Kastrup þegar við fórum heim, honum til mikillar sorgar.
Meira seinna, þegar ég nenni að setja inn myndir.
Okkur langaði nákvæmlega ekkert að koma heim.