Pálmasunnudagur, já. Ég var einmitt að rifja upp áðan pálmasunnudaginn fyrir 35 árum. Þann dag fermdust allir jafnaldrar mínir á Króknum. Ekki ég. Það var svolítið skrítin tilfinning. En ég var sátt við mína ákvörðun þá og hef alltaf verið það síðan.
Ég bað um Biblíuna í afmælisgjöf þegar ég var tólf ára og las hana spjaldanna á milli (nema ég skal ekki fortaka að ég hafi kannski farið á hundavaði yfir suma af minni spámönnunum). Eftir þann lestur ákvað ég að þetta væri ekki fyrir mig. Líklega var það þessi vandláti og kröfuharði Guð sem ég sá þarna (en kom ekki fram í Biblíusögunum mínum) sem fékk mig til að efast. Það og ákveðin tilhneiging mín til að vera öðruvísi en aðrir varð til þess að ég ákvað að láta ekki ferma mig.
Ég gekk samt til spurninga með hinum krökkunum, ekki af því að ég vildi hafa vaðið fyrir neðan mig og eiga þess kost að skipta um skoðun á síðustu stundu, heldur af því að ég vildi vera alveg viss um að ég væri að gera rétt. Í spurningakverinu var eitthvað minnst á að framhaldslífi þeirra sem afneituðu trúnni mætti líkja við eilífðarvist á brennandi sorphaugum Jerúsalemsborgar. Presturinn lagði sérstaka áherslu á þetta atriði. Þá varð ég alveg viss um að ég væri að gera rétt.
Ég var reyndar ekkert alveg trúlaus þá þótt kristin trú höfðaði ekki til mín eftir biblíulesturinn. Ég hélt áfram að leita í eitt eða tvö ár að einhverju til að trúa á. Svo rann upp fyrir mér að ég hafði bara ekkert með það að gera. Og aldrei síðan hef ég fundið fyrir þessari trúarþörf sem maður heyrir oft fullyrt að öllum sé meðfædd. Ég gæti kannski sagt að ég tryði á lífið - með öllum þess stóru kostum og göllum - en allavega ekkert æðra. Reyndar veit ég ekki hvað ætti að geta verið æðra lífinu. Maður þarf bara að horfa á lítið barn til að sjá það.
Ég kvíði allavega ekkert fyrir brennandi sorphaugunum.