Ég veit að ég tala oft um hvað ég er utan við mig og sveimérþá ef þetta er ekki að ágerast. Ég áttaði mig á því áðan að ég var búin að skrifa drjúgan hluta af pistli í Gestgjafann hér inn á bloggið og átti eiginlega bara eftir að ýta á publish.
Eða nei, þetta er líklega ekkert verra en vanalega. Ég man til dæmis eftir því að einu sinni þegar ég var unglingur var Gamli-Sveinn föðurbróðir minn einu sinni í hádegismat heima á Smáragrundinni og sat við hliðina á mér. Ég varð skyndilega vör við að allir voru farnir að stara á mig og áttaði mig þá á því að ég var farin að borða fiskinn af diskinum hans en ekki af mínum eigin diski, sem var beint fyrir framan mig.