Ég er í ónáð hjá Boltastelpunni um þessar mundir vegna þess að ég er búin að bjóða ættingjunum í matarboð og það er barnlaust. Hún sér út af fyrir sig ekkert athugavert við barnlaus matarboð en finnst ástæðulaust að hún sé innifalin í slíkum takmörkunum. Þannig að mér var tilkynnt í gær að ég væri Vond Kona og að ég væri sko ekki uppáhaldsamman hennar lengur.
Í kvöld var fjölskyldan svo í mat. Kjötbollur með tómatmauki og tzatziki. Boltastelpan kom til mín eftir matinn:
-Amma, manstu þegar þú gafst mér fimmhundruðkall um daginn?
Amman: -Já?
Boltastelpan: -Ég finn hann hvergi, ég held að hann hafi týnst.
Gagnlega barnið: -Hekla, ekkert betl!
Amman: -Æ, æ. Heyrðu, viltu rétta mér veskið mitt, þetta stóra ...
Gagnlega barnið og efnafræðistúdentinn í kór: -Mamma!
Amman: -... það er einmitt fimmhundruðkall í því sem ég er ekkert að nota, hann er í litla hólfinu.
Efnafræðistúdentinn: -Af hverju geturðu ekki verið amma mín?
Boltastelpan (finnur fimmhundruðkallinn): -Takk, elsku amma.
Amman: -Er ég núna aftur orðin uppáhaldsamma þín?
Boltastelpan (hneyksluð á svipinn): -Nehei.