Ég komst að því í morgun að póstur sem sendur er á vinnunetfangið mitt utan vinnutíma hefur að undanförnu hafnað hjá einhverri nöfnu minni norður í landi. Það er búið að kippa þessu í lag núna en það er eins gott að ég hef ekki verið að ræða nein sérstök leyndó eða persónuleg mál í tölvupósti að undanförnu. Konan veit samt núna ýmislegt um næsta saumaklúbbsfund, pressuballið og fyrirhugað afmælismatarboð efnafræðistúdentsins, meðal annars.
Hitt þótti mér merkilegra (og hefði getað verið alvarlegra) að ég fékk í gær tölvupóst (reyndar sendur á netfang Gestgjafasíðunnar) sem hafði átt að fara á Persónuvernd. Ég hafði samband við sendandann, sem kunni enga skýringu og hafði fengið sjokk þegar hún fékk kvittun fyrir móttöku frá gestgjafinn.is. Til allrar hamingju voru engar persónulegar upplýsingar í póstinum, bara einföld fyrirspurn - en það hefði getað verið öðruvísi.
Dularfullt.