Ég er aftur að horfa á skautalisthlaup í sjónvarpinu. Veit eiginlega ekki af hverju en það segir kannski sitt um dagskrána á öllum hinum stöðvunum.
Sjálf hef ég ekki stigið á skauta í sirka 35 ár. Og var aldrei nein skautadrottning, tókst þó heldur skár upp að standa í lappirnar heldur en í þau fáu skipti sem ég festi á mig skíði. Ekki að það væri mikið úrval af skautasvellum á Króknum, þar gat maður valið um að fara á skauta niður á sand eða inn á heita vatn. Hvorugt hljómar nú mjög skautalega.
En þessir strákar eru nú svolítið flottir í þessum tvöföldu axelum sínum og salchowum og lutzum og hvað þetta heitir nú allt saman. (Nei, ég þekki þetta ekki í sundur.)
Kannski ætti ég að gefa Sauðargærunni skauta í haust og segja honum að fara að æfa sig. Þessir drengir byrjuðu víst flestir um fjögurra ára aldurinn svo að það er ekki seinna vænna ef hann á að komast í fremstu röð.
Fjandakornið, nei. Gef honum frekar fótbolta. Hann er búinn að fá fótboltaskó og KR-búning.