Ég hef tilhneigingu til þess - þegar ég á annað borð held með einhverjum í íþróttum, sem er nú ekki alltaf - að halda með þeim minni eða veikari. Ef Íslendingar væru til dæmis að spila fótbolta við Færeyinga mundi ég trúlega halda með Færeyingum. Ef Rússar spila við Letta held ég með Lettum. Ef Bandaríkjamenn eru að spila við einhverja held ég örugglega með hinum af því að Bandaríkjamenn hirða alltaf meiripartinn af verðlaununum hvort eð er.
Þetta viðhorf hefur mér aldrei tekist að fá marga bandaríska kunninga mína til að skilja. Þeim finnst að maður eigi að halda með þeim sem er sterkari og sigurvænlegri (þ.e. Bandaríkjamönnum). Sem er bara í samræmi við það sem Bandaríkjamönnum finnst um heimsmál almennt.
Ég geri lítið af því að halda með Kínverjum, sennilega af því að þeir eru svo helvíti margir og eiga meira og minna eftir að yfirtaka allar íþróttagreinar í framtíðinni. En það var samt erfitt annað en að halda með kínverska parinu í skautalisthlaupinu á Ólympíuleikunum, sem ég var að horfa á áðan - stelpan datt mjög illa í fyrstu lendingu, var heillengi að jafna sig, virtist hálfhaltra, manni datt ekki í hug annað en þau hættu keppni - en svo beit hún á jaxlinn, þau héldu áfram, gerðu glæsilegar æfingar og náðu silfurverðlaunum. Og um leið og hún var komin út af svellinu kom læknir liðsins og vafði hnéð og lærið ofan frá og niðurúr.
Ég hélt líka með Norðmanninum sem datt, var troðinn undir og braut skíðið sitt í startinu á skíðagöngunni og tókst samt að ná silfri. Hmm, ég er farin að játa á mig meira íþróttaáhorf en mér þykir gott. En það eru nú Ólympíuleikar. Ég hef alltaf verið svolítið svag fyrir Ólympíuleikum.
Kannski ég horfi áfram á Eurosport þar til Lost byrjar. Það er verið að sýna skíðaskotfimi ...