Af því að ég var að lesa um gleði pönkarans yfir því að hafa fengið veitingahúsareikning þótt hún væri með karlmann í för, þá datt mér í hug þegar ég var að fara með börnin til Þýskalands fyrir mörgum árum að heimsækja Gunnu systur og Bjarna mág, sem voru þá í námi í Karlsruhe. Ég keypti flugmiðana í gegnum ferðaskrifstofu.
Þegar ég kom á staðinn til að sækja miðana var farið að leita að þeim en þeir fundust ekki þar sem þeirra var von. Ég var með kvittun í höndunum upp á að ég væri búin að borga og það var haldið áfram að leita. Og leitað og leitað og leitað. En hvergi fundust neinir miðar á mínu nafni.
Eftir 10-15 mínútur, þegar allt starfsliðið í afgreiðslunni var kominn í málið, fundust miðarnir loksins. Þeir höfðu auðvitað verið settir á nafn karlmannsins í hópnum.
Sem var þriggja ára.