Klassískt Nönnuvandamál: Ég finn ekki vegabréfið mitt.
Það er einhvers staðar á góðum stað. Gallinn er að ég man ekki hvar sá staður er.
Síðasti góði staður þar á undan var mjög góður. Hefði átt að halda mig við hann. Það var nefnilega hnífaparaskúffan. Vegabréf sem geymt er í hnífaparaskúffunni týnist ekki. Það er alltaf á vísum stað og maður sér það daglega. Oft á dag.
Ég setti það þar eftir að ég fann það í súputarínunni. Tek fram að það var ekki ég sem setti það í tarínuna og það er ekki þar núna.
Ég þarf víst að fara að gera leit.