Loforðið um eplaskífubaksturinn var efnt fyrr en til stóð því að Sauðargærunni fannst ekkert voðalega spennandi að vera í brúðkaupsveislu þannig að hann fékk að yfirgefa samkvæmið eftir matinn, koma til ömmu sinnar og gista. Og það fyrsta sem hann sagði þegar hann vaknaði í morgun var auðvitað: ,,þú ætlar að baka eplaskífur handa mér". Sem ég gerði. Eplaskífur með ryki, eins og hann sagði og meinti flórsykurinn sem sigtaður var yfir þær.
Eplaskífupannan mín, sem er úr steypujárni, hefur reynst afbragðsfjárfesting. Ég rak augun í hana úti í glugga hjá Þorsteini Bergmann, þar sem hún var notuð sem kertastjaki. Það finnst mér ill meðferð á góðum grip.
Systir drengsins kom aftur á móti ekki þar sem hún er ekki í bænum. Fékk boð frá afa sínum um að koma norður og fara með honum í Skrapatungurétt og fannst það miklu meira spennandi en einhver brúðkaupsveisla.
,,Hún er að pota í kindur," sagði bróðir hennar þegar ég spurði hann hvað hún væri að sýsla í sveitinni.