Ég er smátt og smátt að átta mig á því að ég er orðin einbúi, fann ekkert fyrir því fyrst af því að þá kom efnafræðistúdentinn heim í kvöldmat. Núna hef ég ekki séð hann síðan á laugardag (nema út um strætóglugga) og það er dálítið sérkennilegt.
Ekki misskilja mig. Ég sakna hans ekkert að ráði.
Það tekur bara sinn tíma að setja sig í nýjar stellingar. Mesti vandinn samt líklega að venja sig á nýja siði varðandi kvöldmatinn. Ég kann alveg að elda fyrir einn en það getur verið meira mál að kaupa inn fyrir einn. Og enginn til að gefa álit á matnum. Kannski ætti ég að auglýsa eftir kostgöngurum.