Ég var að horfa á Hell's Kitchen áðan á Sirkus. Reyndar bara seinni hlutann því að ég kom svo seint heim úr vinnunni. En þar var kona sem var að sjóða pasta og gekk eitthvað illa að ná upp suðu í pastapottinum. Þá hellti hún slatta af köldu vatni saman við það heita. Gordon Ramsay trompaðist náttúrlega og spurði hvern andskotann hún væri að gera. Hún sagðist vera að gera þetta af því að kalt vatn syði fyrr en heitt. Ramsay varð kjaftstopp. Það gerist nú örugglega ekki oft.
Ég fór að velta því fyrir mér hvað konugarmurinn væri eiginlega að fara og datt í hug að líklega hefði hún ruglast eitthvað og verið með í huga þjóðsögu sem er reyndar að nokkru leyti sönn: Að heitt vatn frjósi fyrr en kalt. Í bók sem ég á stendur meira að segja að þetta sé ,,common knowledge in Iceland" - ég er nú ekki viss um það en þetta stafar annars vegar af uppgufun og hins vegar af kælingu vegna aukins loftstreymis - heita vatnið ,,blæs á eigið yfirborð", eins og Harold McGee segir í The Curious Cook. En þetta gerist bara við ákveðin skilyrði.
Svo komst ég reyndar að því þegar ég fór að lesa mér betur til að þetta með að kalt vatn sjóði fyrr en heitt er líka þekkt þjóðsaga, sjá t.d. hér.