Snitturnar sem ég er að fara að smyrja fyrir fjögurra ára afmæli Sauðargærunnar verða úr sérbökuðu snittubrauði.
Ég kom í Sandholt áðan eftir að hafa keypt annað sem mig vantaði og bað um snittubrauð en þau voru þá bara búin. Ég sá fram á að þurfa að rölta bæinn á enda (ókei, nokkrar götulengdir) í leit að almennilegum snittubrauðum og þar sem ég var ekki búin að fá neitt kaffi í morgun ákvað ég að safna kröftum yfir kaffibolla og pekanvínarbrauði. Settist með þetta út í port og þegar ég var nýsest skálmaði landsliðsbakarinn framhjá og kastaði á mig kveðju. Ég notaði tækifærið og spurði kvurslags bakarí það væri þar sem snittubrauðið kláraðist um hádegi. Hann sagði að það hefði bara verið svona gífurleg snittubrauðssala í morgun, spurði hvernig snittubrauð mig vantaði og hvort ég gæti beðið í korter, hann væri með deig sem væri að fara í ofninn. Ég hélt það nú, varla byrjuð á kaffinu og ólesið Grapevine á borðinu. Og eftir rétt rúmlega korter fékk ég í hendurnar sjóðheit og ilmandi snittubrauð.
Þetta kallar maður nú þjónustu.
Annars verða snitturnar engar venjulegar barnaafmælissnittur. Áleggið verður reyktar svartfuglsbringur og grafin hrossalund, meðal annars.