Dóttursonurinn sagði mér sögu áðan.
Sauðargæran: -Það var einu sinni kónguló. Og svo kom skjaldbaka og át kóngulóna. Og svo kom krummi og hann var með hníf og skar gat á magann á skjaldbökunni.
Amman: -Og bjargaði kóngulónni?
Sauðargæran: -Nei, hann skjótti kóngulóna. Og svo skjótti hann líka skjaldbökuna.
Amman: -Vá, maður.
Sauðargæran: -En svo kom veiðimaðurinn og hann var líka með byssu og hann skjótti krumma.
Amman: -Það var nú ljótt.
Sauðargæran: -Nei, þetta var vondur krummi. Og svo tók veiðimaðurinn límband, hann tók tvö límbönd, og hann lagaði körfuna með límböndunum.
Amman: -Hvaða körfu?
Sauðargæran (hneykslaður): -Körfuna sem hann var að laga.
Amman: -Ó.
Sauðargæran: -Og svo tók hann byssuna og skjótti ljón í Afríku og setti ljónið í körfuna. Og líka tígrisdýr. Og svo skjótti hann flóðhest en hann gat ekki sett hann í körfuna.
Amman: -Af því að karfan var ekki nógu stór?
Sauðargæran: -Já. Þá tók hann meiri límbönd og gerði stærri körfu.
Amman: -Jahá.
Sauðargæran: -Svo klifraði veiðimaðurinn upp í tré og faldi sig af því að hann var hræddur.
Amman: -Við hvern?
Sauðargæran: -Við deingút.
Amman: -Bíddu, hann var ekkert hræddur við ljón og tígrisdýr og flóðhesta en hann faldi sig uppi í tré þegar hann sá geitung?
Sauðargæran: -Já. En svo kom maður með net og veiddi deingútinn.