Þegar ég var átján ára átti ég mér miklar uppáhaldsbuxur. Þær voru keyptar í einhverri tískubúð á Akureyri sem ég man ekki lengur nafnið á (ekki Sesar). Þar sem þær voru úr rifflaflaueli voru þetta ekki Sjallabuxur en ég var nú samt í þeim í fyrsta skipti sem ég fór í Sjallann. Ég var nefnilega svo menningarleg að ég fór á eitthvert tónlistarkvöld sem haldið var á fimmtudagskvöldi (ég man að Valdimar íslenskukennari var að syngja madrígala með fleirum) og svo var ball á eftir. Og þar sem svona var í pottinn búið hleypti Kobbi dyravörður mér inn þótt ég væri ekki í próper Sjallabuxum.
Buxurnar voru semsé úr flöskugrænu rifflaflaueli og með rennilás að aftan. Mátulega fínar til að vera bæði hversdags og pínulítið spari. Ég elskaði þessar buxur. Þveröfugt við Sjallabuxurnar mínar, sem voru úr svörtu flaueli og frekar ömurlegar. Ég gekk í grænu buxunum þar til þær voru orðnar alveg útslitnar og sennilega lengur. Og sá mikið eftir þeim.
Þess vegna var það að þegar ég var stödd í Noa Noa á dögunum og rak augun í grænar rifflaflauelsbuxur með rennilás að aftan - sem reyndust meira að segja vera til í mínu númeri - þá bara stóðst ég þær ekki þótt mig vantaði eiginlega alls ekki neinar buxur. Ég segi ekki að ég verði átján ára í annað sinn við það að fara í buxurnar og þessar sem ég átti í gamla daga voru sennilega flottari. Eða líklega var það ég sem var flottari í vextinum. En þær smellpassa og mér líður vel í þeim.
Ég er samt búin að komast að því að það er ekki alveg eins auðvelt að hneppa tölu fyrir aftan bak og það var fyrir þrjátíu árum.