Það hefur ríkt sokkahallæri hér á heimilinu að undanförnu. Það er að segja hjá mér, efnafræðistúdentinn leysti það mál fyrir löngu með því að kaupa alltaf sams konar svarta sokka þannig að honum nægir að finna tvo sokka, þá er hann kominn með par. Ég gæti auðvitað gert þetta líka en dettur það ekki í hug. Þannig að ég stend kannski uppi með tíu sokka og engir tveir passa saman.
Þetta hefur samt verið óvenju slæmt að undanförnu. Sokkakarfan alltaf full af stökum sokkum, sokkarnir á móti finnast hvergi og þrátt fyrir eftirleitir í hreina tauinu og óhreina tauinu, í skúffum og skápum, undir rúmum og annars staðar þar sem sokkar geta villst hefur ekkert ræst úr. Ég keypti mér fleiri sokka en það fór á sömu leið. Þetta þótti dularfullt og hefur orðið tilefni mikilla spekúleringa hjá okkur Sauðargærunni, við vorum bæði sannfærð um að hér ætti Sokkaskrímslið hlut að máli og við vorum að safna í okkur kjarki til að leita að höfuðstöðvum þess, sem almennt eru taldar vera undir rúmi efnafræðistúdentsins, og gera innrás.
En nú er komið upp úr dúrnum að Sokkaskrímslið er líklega saklaust að þessu sinni og engin yfirnáttúruleg öfl að verki. Hér gildir auðvitað sem víðar reglan um rakhníf Ockhams: Einfaldasta skýringin er sú líklegasta. Það sá ég áðan þegar ég fann hina sokkakörfuna mína.
Ég á nefnilega tvær eins tágakörfur. Önnur er sokkakarfan en hin hefur verið notuð undir hitt og þetta. Það rifjast núna upp fyrir mér að einhvern tíma í vetur tók ég svo rækilega til í hitt-og-þetta-körfunni að ég henti öllu sem í henni var. Svo hefur annaðhvort okkar mæðginanna verið að taka af snúrunni, séð tóma körfu og haldið það vera sokkakörfuna, hent öllum sokkunum ofan í hana til flokkunar síðar ... og þannig hefur þetta gengið síðan, tvær körfur í gangi og happdrætti hvort samstæðir sokkar lentu í sömu körfu.
Nú spyr kannski einhvern hvernig staðið hafi á því að ég hafi ekki áttað mig á því mánuðum saman að sokkakörfurnar voru tvær. Þeir sem spyrja þannig þekkja greinilega ekki til á þessu heimili.
En ég á allavega nóg af sokkum núna.