Ég var að ljúka við þýðingu á texta um safapressun, sem mér skilst að sé voðalega mikið in núna. Allt í lagi með það, þetta er ábyggilega allt svakalega hollt og heilsusamlegt og ég er viss um að ég hefði gott af því að fara á safakúr.
En í hráefniskaflanum, þar sem taldar eru upp ýmsar tegundir ávaxta og grænmetis, sagt frá kostum þeirra og til hvers á að nota safann, þá hefur eitthvað farið á milli mála. Seinasti liðurinn í umfjöllun um hvert hráefni heitir Preparation og þar er sagt hvað á að gera við þetta áður en það fer í safapressuna. Og sá texti passar misvel við hráefnið. Allavega leist mér ekki á þegar kom að spínatinu og þar stóð: ,,Peel and break into segments." Sami texti er reyndar líka við steinselju og víðar.
Ég hef nú gert ýmislegt furðulegt í eldhúsinu mínu um dagana. En ég hef enn ekki flysjað spínat.