Nú kemur það mér í koll að hafa ekki verið jafndugleg að vinna á milli jóla og nýárs og ég ætlaði mér. Eiginlega ætti ég að vera heima, ekki reyndar í rúminu, ég er mun skárri en í gær, en kúrandi í sófahorninu með teppi, glæpasögu, sjónvarpsfjarstýringu, teketil og svo auðvitað koníaksglasið ... En ég á víst eftir að skila af mér einhverjum greinum í næsta blað. Einmitt nákvæmlega greinunum sem ég ætlaði að skrifa á milli jóla og nýárs. Svo að hér sit ég í vinnunni, hóstandi og rám eins og rolla, en líður annars alveg þokkalega.
Eldamennskan er samt frá að mestu. Á að vísu eftir að baka nokkrar bollur og elda saltkjöt og baunir fyrir svolitla föstuinngangsgrein sem verður í blaðinu. Æi já, ég á líka eftir að skrifa hana.
Svo er ég með einhverja sýkingu í augunum og stöðugt nefrennsli. Eins gott að ég er ekki sjónvarpskokkur. Einhver sagði við mig áðan að ég gæti smitað fólk með útlitinu einu saman.