Ókei, ég er með fordóma gagnvart úthverfum. Það viðurkenni ég fúslega.
Sennilega má rekja þá alla aftur til vetrarins 1978-9. Þá bjó ég í Neðra-Breiðholti. Rúmlega tvítug einstæð móðir. Bíllaus, símalaus og peningalaus.
Þetta var veturinn þegar ég eldaði hrefnukjöt þrjá daga í viku og svartfugl á sunnudögum. Hrefnukjötið kostaði 150 krónur kílóið og var ódýrasti maturinn í búðinni.
Þetta var veturinn þegar ég þurfti oftar en einu sinni að tína saman þær fáu flöskur sem ég fann inni og úti og lúsleita í öllum vösum, skúffum og krukkum að krónupeningum svo að ég ætti fyrir skyri í kvöldmatinn handa okkur mæðgunum.
Þetta var veturinn þegar ég komst stundum ekki í skólann af því að ég átti ekki fyrir strætó.
Þetta var veturinn sem ég þurfti að leggja af stað klukkutíma og korteri áður en ég átti að mæta í skólann af því að ég þurfti að taka þrjá strætóa, þar sem eina dagheimilisplássið sem ég gat fengið var á Austurborg.
Þetta var veturinn sem fór á undan sumrinu þegar ég gekk fyrir þunglyndislyfjum.
Síðan hef ég ekki verið mikið fyrir úthverfi.