Ég eldaði svartfugl í sunnudagsmatinn. Það var nú ekki vegna upprifjunar hér á dögunum á svartfuglsáti á sunnudögum fyrir ævalöngu, heldur vegna þess að mér voru gefnir nokkrir fuglar á föstudaginn (takk, Guðný). Ég er nýbúin að lesa frétt um að allur svartfugl á Skagafirði og víða fyrir norðan sé dauður eða að drepast úr hor en þessi var allavega vænn og greinilega ekki í neinu svelti, miðað við fituna innan á hamnum. Ég var ekkert að leggja hann í neitt mjólkursull eins og ég gerði alltaf í gamla daga en af því að hann þurfti að bíða lét ég hann vera í köldu vatni blönduðu svolitlu ediki og salti.
Fuglinn var ljómandi góður (þótt 75% afkomenda minna væru á öðru máli); ég brúnaði helminginn af bringunum (á beini) og gufusteikti síðan (notaði kraftmikið soð sem ég var búin að sjóða af lærum og beinum). Hinn helmingurinn var tekinn af beini og bringurnar steiktar í 3 mínútur á hvorri hlið. Þetta var svo allt borið fram í sérlega góðri sósu sem Sauðargæran bjó til (með smáhjálp frá ömmu sinni) og var bragðbætt með rjóma og rommi. Meðlætið var ofnbakað grænmeti (kartöflur, gulrætur, rófur, butternut-kúrbítur og rauðrófur) og eplasalat með vínberjum og spínati. Og sultutau náttúrlega.