Boltastelpan kom hér við áðan til að afhenda nýjasta tölublaðið af málgagni sínu, sem að þessu sinni fjallar aðallega um Gísla Martein og skartar mynd af honum á forsíðunni í staðinn fyrir Turkmenbasi og Konfúsíus, sem voru framan á síðasta blaði. (Gísli Marteinn kemur þó ekki við sögu í framhaldssögunni Heimurinn í hættu.)
Ég spurði hana hvort hún væri ekki fegin að eiga að byrja í skóla eftir helgi. Hún sagði að í fyrsta lagi væri það ekki víst því að það væri ekki búið að taka ákvörðun varðandi vetrarfríið sem á að byrja á mánudaginn, í öðru lagi væri hún bara ekkert fegin því að verkfallið væri búið og í þriðja lagi væri hún búin að gleyma hvernig væri að vera í skóla því að það væri svo langt síðan síðast.