Boltastelpan er algjör Lína langsokkur hvað kraftana varðar. Henni varð ekki mikið um að halda á rúmlega þrettán kílóa svínslæri upp stigana hér á Kárastígnum í dag og blés ekki úr nös. Læri af þessari stærð kaupi ég venjulega ekki nema þegar ég ætla að fara að verka Þorláksmessuskinkuna en ég er nú ekki svona snemma í því í ár - nei, ég er að fara að elda fyrir októberfest efnafræðinema sem verður annað kvöld og þar verður meðal annars borið fram þetta læri og annað minna.
Verst að ég gleymdi að láta þá í Nóatúni saga skankann af flykkinu. Ég verð því að byrja á því í fyrramálið að finna sögina mína því að það er ekki möguleiki að lærið komist í ofninn nema ég sagi af því. Og það þarf líklega á milli átta og níu tíma í ofninum ef ég er að reikna rétt. Eða kannski lækka ég hitann og hef það enn lengur. Fer svolítið eftir því hvenær ég vakna í fyrramálið.