Julia Child, sú merkilega kerling, dó nýlega, 92 ára gömul. Frægasti matreiðslubókahöfundur/sjónvarpskokkur Bandaríkjanna. Kunni ekki einu sinni að sjóða egg þegar hún var 34 ára. Þannig að krakkar, það er enn von ...
Julia var afar stórvaxin (1,88 á hæð) og þegar kviknaði í heima hjá henni var það fyrsta sem hún gerði að grípa alla skó sem hún fann og kasta þeim út um gluggann - hún átti nefnilega svo erfitt með að fá skó í sínu númeri. Reykti eins og strompur fram í andlátið. Mikill karakter.
Sagan segir (reyndar þjóðsaga en öllum ber saman um að hún gæti verið sönn) að Julia hafi fyrst slegið í gegn í sjónvarpi þegar það gerðist í einum af fyrstu þáttunum hennar - í beinni útsendingu - að hún var að færa kjúkling (eða stórt kjötflykki) úr steikarskúffu yfir á fat en missti hann í gólfið. Hún lét sér ekki bregða, tók kjúklinginn, setti hann á fatið, leit beint í myndavélina og sagði ,,Remember, you are alone in the kitchen."
Jú, þetta gerðist reyndar en það var kartöflupönnukaka sem datt og hún datt bara á eldhúsborðið. En sagan er betri svona ...
Ég var einu sinni að steikja kalkúna til að fara með í sjónvarp. Hann datt. En bara ofan á ofnhurðina, ekki á gólfið. Og ég er engin Julia.