Ég er enn netsambandslaus heima - það lagast þó vonandi í dag - þannig að ég gat ekki unnið verkefni sem ég ætlaði að vinna í gærkvöldi (og er reyndar búin að draga alltof lengi) - í staðinn hreiðraði ég um mig í sófanum með nýjustu bók Kathy Reichs. Hún er ágæt en ég varð þó fyrir pínulitlum vonbrigðum með hana, fannst plottið ekki eins vel unnið og í flestum fyrri bókunum og einkalíf aðalpersónunnar verður stöðugt minna áhugavert - vonandi er Reichs ekki að fara sömu leiðina og Patricia Cornwell, sem ég nenni ekki lengur að lesa.
Það er allavega ekki traustvekjandi þegar höfundurinn þarf að grípa til þess þónokkrum sinnum í sögunni að skapa spennu með því að segja ,,ég átti eftir að iðrast þess mjög að hafa gert þetta" eða ,,mig grunaði þá ekki hvaða skelfing beið mín á mánudagsmorguninn" eða eitthvað álíka. En ef þið hafið ekki lesið Reichs, þá mæli ég með bókunum hennar, þetta er fínn höfundur.
Annars er bókasmekkur minn kannski ekkert marktækur, ég virðist jú vera næstum því eina manneskjan sem fannst DaVinci-lykillinn frekar óinteressant og illa skrifuð bók ...