Veðrið lék við okkur í dag þegar við vorum að byrja að mynda fyrir grillblaðið. Það getur reyndar vel verið að ekki hafi verið sérlega gott veður annars staðar í borginni en á svölunum hjá mér var það ljómandi gott. Ekkert sérlega hlýtt að vísu, en það kemur ekki til með að sjást á myndunum.
Eftir svona grillmyndatöku er venjulega eitthvað til í kvöldmatinn en það er varla hægt að segja það núna, þar sem þetta voru eingöngu kartöfluréttir og brauð - ojæja, ég bakaði reyndar nokkrar smápitsur á grillinu og efnafræðistúdentinn er búinn að vera að gæða sér á þeim. Svo eru þarna smábrauð, krydduð pítubrauð, hvítlauks- og tómatabrauð og fyllt brauð með tómötum og klettasalati. Og kryddaðar kartöflusneiðar, kartöfluhelmingar, kartöflubátar og smákartöflur á teini. Þannig að líklega get ég nú gert eitthvað í kvöldmatinn úr þessu.
Á morgun verða aftur á móti engin vandræði því þá er ég að grilla eina 4-5 fiskrétti og álíka marga kjúklingarétti. Og á miðvikudag eða fimmtudag er það blessað lambakjötið. Þannig að svöngu fólki er meira en velkomið að kíkja í heimsókn seinnipart dags næstu dagana.
Mig langar skelfing mikið að grilla heilan grís eins og Hugh Fearnsley-Whittingstall er að gera í sjónvarpinu akkúrat núna. En það verður víst að bíða, rétt eins og uxinn.