Ég kom við í Kringlunni þegar ég var búin í viðtalinu. Mistök. Þar er einhver fjögurra daga vorútsala og þar sem vorið er að sýna einhver merki þess að vera komið, þrátt fyrir skafla í Esjunni, þá var ég nýbúin að uppgötva vorfatnaðar- og þó einkum skóleysi mitt. Þannig að ég kom heim með tvennar buxur, tvo boli, skyrtu/jakka og þrenna skó. Og tuttuguogeitthvað þúsund krónum fátækari.
Samt var ekkert voðalega margt sem freistaði mín. Tískulitir sumarsins eru bara ekki mínir litir. Ég hef aldrei kunnað að meta pastelliti; mig minnir að síðast þegar þeir voru í tísku (eða næstsíðast, ég fylgist ekki svo vel með) hafi ég átt sérlega glæsilegar ljósbleikar smekkbuxur. Svo stóð ég einhvern tíma fyrir framan spegil, horfði á sjálfa mig í þessum smekkbuxum og hugsaði: Nei. Aldrei aftur.
Og svo var alveg ótrúlega mikið af svörtum fötum. Hvernig stendur á því að sumir innkaupastjórar/fatahönnuðir virðast vera á þeirri skoðun að um leið og kona er komin upp fyrir vissa stærð í fatnaði þýði ekki að bjóða henni neitt nema svartar flíkur? Það er nefnilega þjóðsaga að svart sé alltaf grennandi. Svart getur verið grennandi en það er ekki sjálfgefið. Fer eftir flíkinni, vaxtarlagi þess sem klæðist henni og manngerðinni. Ég virka til dæmis ekki grennri ef ég klæðist svörtu (sem ég geri aldrei). Ég virka eins og lifandi lík í svörtu.