Ég hef sagt það áður: Veðurfarslega séð er Ísland ekki hentugt land til mótmæla. Sem blaðamaður gat ég samt ekki látið mig vanta niðri á Austurvelli áðan.
Eiginlega er Ísland ekki hentugt land til grillmatarljósmyndunar heldur, allavega ekki fyrir miðjan maí. Hálf-ótrúlegt, eins og veðrið er búið að vera síðustu viku, að okkur skuli hafa tekist nokkurn veginn að ljúka öllum útimyndatökum fyrir grillblaðið. Í dag var það semsagt lambakjötið og ég grillaði tvö læri (annað úrbeinað að hluta og fyllt, hitt úrbeinað, flatt og marínerað í sinnepi og rósmaríni), lambalærissneiðar með apríkósugljáa og súpukjöt kryddað að grískum hætti og skorið niður í gyros.
Fjölskyldan kom svo í leifarnar og lét vel af þótt barnabörnin væru ekkert sérlega dugleg við kjötið fremur en við var að búast - ég ofnsteikti kartöflur með rósmaríni og bjó til salat með m.a. afskaplega vel þroskuðum tómötum, fetaosti, söltuðum ólífum og óreganó - þetta varð ansi hreint grískur matur. Eftirmaturinn var svo blanda af ýmsum suðrænum ávöxtum sem var í afar litlu samræmi við veðrið úti - þarna voru jarðarber, hindber og vínber, papaja, mangosten, drekaávöxtur og fíkjur, borið fram með mascarponeosti og heimagerðum vanillusykri. Ansi gott.