Ég er ein heima í kvöld, efnafræðistúdentinn fór með skylmingastúlkunni í rómantíska Suðurnesjaferð. Nú eru kannski Suðurnesin ekki það fyrsta sem manni dettur í hug þegar talað er um rómantík en drengurinn fór á bingó um daginn, hjá verkfræðinemum minnir mig (hvernig sem á því stóð) og vann gistingu fyrir tvo á Hótel Keflavík, ásamt hádegismat á einhverjum keflvískum veitingastað og ferð í Bláa lónið. Þannig að það var ákveðið að nýta sér þetta áður en próflestur hefst fyrir alvöru.
Það er að byrja þáttur um Víðimýrarkirkju í sjónvarpinu. Kannski ég horfi á hann, þó ekki væri nema til að sjá Glóðafeyki bregða fyrir nokkrum sinnum. Eina fjallið sem mér stendur ekki alveg á sama um.
Og þó, ég held ég nenni því ekki ef séra Gísli ætlar að tala allan tímann.