Ég ætla að elda eitthvað gott handa litla drengnum mínum í kvöld, veit ekki enn hvað það verður. Hann á það skilið eftir að hafa verið meira og minna einn og yfirgefinn alla helgina og reyndar frá því um miðja síðustu viku. Ókei, ég var heima mestallan daginn í gær en þá var hann sofandi. Eða allavega rúmliggjandi.
Ekki þar fyrir, hann getur vel bjargað sér sjálfur og svalt svosem ekkert þótt ég væri ekki heima til að elda. Hann er vel liðtækur í eldhúsinu eins og margoft hefur komið fram og ég fer brátt að verða óþörf. Ég er til dæmis viss um að mikilvægi mitt hefur minnkað ögn þegar hann uppgötvaði um daginn hvað er auðvelt að búa til svakalega góðan súkkulaðibúðing.
Einn daginn rennur upp fyrir honum að hann getur búið til sitt eigið lasagne. Þar með er hlutverki mínu í lífi hans líklega lokið.
Hann hefur hins vegar enn hlutverk í mínu lífi. Hann á að skúra. Og vera búinn að því þegar ég kem heim í dag.