Ég var eiginlega mun lengur á matarsýningunni í dag en ég hafði ætlað mér og nennti ekki að elda þegar ég kom heim svo að við efnafræðistúdentinn brugðum okkur á Alþjóðahúsið og fengum okkur arabískar kjötbollur. Þær voru bornar fram með frönskum og tómatsósu, sem mér fannst ekkert mjög arabískt - en látum það vera.
Á heimleiðinni fór efnafræðistúdentinn að rifja upp erfiða reynslu úr bernsku sinni, sem tengdist heimatilbúnum súkkulaði- og ananasís (slæm mistök - bæði ísinn og viðbrögð mín við skoðun hans á ísnum). Ég var búin að steingleyma þessu en bað hann innilega afsökunar og meinti það. Held að hann hafi loksins fyrirgefið mér. (Ég er aftur á móti ekkert á leiðinni að biðja hann afsökunar á makkarónupakkanum sem ég henti í hausinn á honum um árið - það átti hann fyllilega skilið.)
Að þessu búnu hvatti ég hann til að fremja lögbrot og hann lét ekki segja sér það tvisvar.