?Það linnir ekki undarlegum atvikum í kringum mig. Dularfulla dýnuhvarfið er enn óupplýst og nú er komið nýtt mál: Dularfulla Betty Crocker-svuntuhvarfið.
Ég er búin að nöldra lengi yfir svuntuskorti í Gestgjafaeldhúsinu, alveg frá því að Marentza rændi af mér svuntu sérmerktri Gestgjafanum, og hef verið með voða fína Harrods-svuntu sem ég á sjálf. Einhvern tíma fyrir helgi rakst ég á Betty Crocker-svuntu í stúdíóinu, sem við fengum einhvern tíma til að mynda fyrir auglýsingu, tilkynnti að ég ætlaði að taka hana til handargagns og nota hana, fór með hana inn í eldhús og lagði hana frá mér. Fór svo heim með fínu Harrods-svuntuna mína.
Þegar ég ætlaði að fara að elda í morgun var Betty Crocker-svuntan horfin og ég fann hana hvergi. Ekki ofan í neinni skúffu eða neinsstaðar. Mjög dularfullt. Ég rölti inn til Sólveigar ritstjóra og tuðaði eitthvað yfir þessu (þetta er sko ekki það fyrsta sem hverfur úr Gestgjafaeldhúsinu, sem á þó að vera læst þegar það er ekki í notkun). En þegar ég gekk framhjá skrifstofunni minni á leið inn í eldhús aftur rak ég augun í eitthvað rautt á miðju skrifborðinu: Viti menn, þarna var Betty Crocker-svuntan komin. Og hún var örugglega ekki þarna þegar ég kom síðast inn í skrifstofuna hálftíma fyrr. Enginn heiðarlegur svuntuþjófur hefur enn gefið sig fram.
Dularfullt.