Tók dálitla törn í eldhúsinu í morgun og eldaði eina fjóra fljótlega kjúklingarétti fyrir myndatöku - þeir voru hver öðrum betri þótt ég segi sjálf frá. Nú á ég bara eftir að skrifa uppskriftirnar. Já, og uppskriftirnar að þessum ellefu sem ég eldaði í fyrradag (áttu að vera tólf en einn fór í vaskinn - í bókstaflegri merkingu). Og eitthvað fleira.
Já, ég veit að það væri mjög gáfulegt að skrifa uppskriftirnar fyrst og elda svo. En ég vinn ekki svoleiðis. Yfirleitt veit ég ekki nákvæmlega hvernig uppskriftin verður fyrr en um leið og ég elda réttinn og þótt ég hafi gert tilraunir áður fæ ég oft einhverja aldeilis brilljant hugmynd í miðju kafi og þarf endilega að ,,láta hana gerast".
Matur 2004 á eftir - þarf að kíkja þangað og fá enn fleiri hugmyndir.