Það er starfsmannafundur í hádeginu í dag og boðið upp á súpu. Sem er gott mál nema ég er handviss um að það verður baunasúpa. Ég hef ekkert á móti baunasúpu en ég er að fara að elda fjóra lítra af baunasúpu í kvöld og það dugir mér alveg.
Við erum að vísu bara sex í mat og þar af tvö börn, svo að fjórir lítrar af súpu kann að virðast rausnarlegt. En ég eldaði víst of lítið af súpu í fyrra og fékk svo bágt fyrir að ég ætla að hafa vaðið fyrir neðan mig núna. Þetta verður örugglega ekki ónýtt. Alltaf hægt að gera eins konar hummus úr afganginum, þegar allir eru búnir að gefast upp á súpu.