Kosturinn við að vinna hjá Fróða er að ég fæ Séð og heyrt á skrifborðið hjá mér óumbeðið og þarf ekki að þykjast hafa lesið það á hárgreiðslustofu. (Merkilegt annars hvað sumir þeirra sem sjá blaðið aldrei nema á hárgreiðslu-/rakarastofu fara oft í klippingu.) Núna í morgun er ég til dæmis búin að fræðast um það að:
- Guð hafði hönd í bagga með fegrunaráformum Rutar Reginalds
- Það var þorramatur á borðum í brúðkaupsveislunni hjá Ástþóri
- Bubbi kann ekki á skíði
- Stýrikerfi flestra manna er án ásetnings
- Það er farið að kalla allan fjandann fajitas nú til dags
- Sigfríð í Pottagöldrum hreinsar áruna í sturtuklefanum
- Stefán Pálsson nær Loga Bergmann upp í höku
- Paula Abdul er laus og liðug
- Rupert í Survivor er með krókódíl sem heitir Wally í stofunni
Ekkert af þessu hefði ég hugmynd um ef ég hefði ekki fengið blaðið á borðið hjá mér áðan. Og mundi sennilega aldrei vita þótt ég sé á leiðinni í klippingu því að hárgreiðslukonan mín kaupir ekki Séð og heyrt.