Fyrst ég nefndi Lolo Ferrari, þá get ég eiginlega ekki látið hjá líða að minnast á Chesty Morgan, sem líklega var ekki jafnbarmmikil og Lolo en óneitanlega mun barmfegurri. Hún lék í myndunum Deadly Weapons og Double Agent 73. Ég held að ég hafi fyrst séð mynd af Chesty í Encyclopedia of Bad Taste. En Lolo Ferrari hefði mun frekar átt heima þar.
Annars man ég eftir húsfreyju í Akrahreppi sem var svo barmmikil að eitt sinn er hún teygði sig yfir borðið til að hella kaffi í bolla hjá gesti sprakk blússan frá henni að framan og annað brjóstið vall ofan í kaffibolla hjá öðrum gesti, tóman að ég held. Eða svo sagði sá sem bollann átti, en það var reyndar Ýtu-Keli svo að sagan gæti verið ögn stílfærð. Ég man líka að Steingrímur Sigfússon lýsti húsfreyju í sinni heimabyggð sem girti brjóstin ofan í buxurnar. En ég er ekki viss um að það sé neitt meira að marka hann en Ýtu-Kela.