Ég sé að absinth-flaska efnafræðistúdentsins stendur á eldhúsbekknum en lítið hefur lækkað í henni síðan ég sá hana síðast, svo að gestirnir hafa líklega drukkið absint í hófi, eins og skáldið sagði. Hið sama verður ekki sagt um sumar aðrar flöskur sem standa þar nærri.
Það eru tveir stórir, svartir ruslapokar, fullir af flöskum, í fatahenginu. Ég held samt ekki að það hafi verið drukkið svona mikið í afmælinu, hef grun um að a.m.k. annar þeirra sé pokinn sem ég minnti efnafræðistúdentinn vandlega á að fara með út í skúr, rétt um leið og ég fór út úr dyrunum í gær. Hann skal þá fá að tína flöskurnar sjálfur upp aftur ef Sauðargærunni dettur í hug að hvolfa úr pokunum á gólfið.