Afmælisboð efnafræðistúdentsins virðist hafa farið hið besta fram, en ég á reyndar enn eftir að heyra álit nágrannanna á því. Ég kom heim af saumaklúbbsfundi laust fyrir eitt og þá var hér fullt af fólki en ekki háværara en svo að ég fór beint að sofa. Einhver tíma á milli þrjú og fjögur vaknaði ég samt, þó við lykt frekar en hljóð, og fór fram; þá stóð efnafræðistúdentinn við eldavélina og steikti amerískar pönnukökur. Þar sem lyktin sem hafði vakið mig var greinilega pönnukökulykt fremur en brunalykt fór ég beint í rúmið aftur og hef ekki hugmynd um hvað seinustu gestirnir stóðu lengi við. Það er allavega enginn sofandi í stofusófanum og langt síðan ég hef rekist á einhvern þar á laugardagsmorgni.
Drengurinn hefur greinilega fengið afmælisgjafir af ýmsu tagi, allt frá sokkum yfir í þetta sem stendur út á svölum og ég á eftir að fá nánari skýringu á. Sem verður ekki fyrr en á eftir því ég ætla að leyfa honum að sofa, að minnsta kosti þar til Sauðargæran kemur hingað í pössun á eftir. Hann á að vera hér á meðan systir hans er að keppa á einu af þremur mótum sem hún tekur þátt í um helgina (tvö handbolta, eitt fótbolta); hún ætlar greinilega að standa undir Boltastelpu-nafninu sem hún gaf sér sjálf. Þetta íþróttagen er ekki komið frá mér, það get ég fullyrt.