Það stendur yfir brúðkaup í Leiðarljósi. Ég áttaði mig nú ekki strax á því hverjir voru að gifta sig af því að það er ansi langt síðan ég horfði síðast á þátt - en þetta er sumarbrúðkaup og allir karlmennirnir eru í hvítum jakkafötum og allar konurnar í hvítum, síðum sumarkjólum, háum í hálsinn, og með stráhatta. Greinilega ekki hægt að fara í sumarbrúðkaup nema maður eigi svona dress. Allavega ekki í Springfield.
Reyndar vill svo til að ég á nákvæmlega svona dress, sem mundi virka í sumarbrúðkaupi - stráhatt og allt - en hvergi annars staðar, nema kannski í fínni enskri garðveislu. Ég hef bara einu sinni verið boðin í fína enska garðveislu og - af ástæðum sem ég ætla ekkert að fara að útskýra - var ég þá í þunnum buxum sem ég bretti upp fyrir hné og var með stórt sjal bundið utan yfir eins og pils. Sérkennileg múndering en ekkert undarlegri en sumir hinna gestanna voru í; þetta var nefnilega sérvitringasamkvæmi, gestir aðallega annars vegar matarsagnfræðingar, hins vegar aldraðir starfsmenn bresku utanríkisþjónustunnar. Hvorttveggja gróðrarstíur fyrir furðufugla. Jú, svo var vísindaritstjóri Financial Times þarna, enda var samkvæmið haldið í bakgarðinum hjá honum. Hann er tiltölulega normal.
En þarna var ég ekki búin að eignast hvíta sumarbrúðkaupsdressið mitt og það hefur því aldrei verið notað í garðveislu. Ekki í sumarbrúðkaupi heldur, enda er óralangt síðan mér hefur verið boðið í brúðkaup. Dressið er semsagt ónotað og allt útlit fyrir að ekki verði þörf fyrir það á næstunni. Fólk sem stendur mér nærri giftir sig yfirleitt í laumi. Eða bara ekki neitt.
En ef einhverjum dettur í hug að bjóða mér í brúðkaup í sumar, þá á ég rétta dressið. Hefði passað í Leiðarljósi allavega.