Ég er á tedrykkjutímabili þessa stundina; þau eru reynar few and far between í mínu lífi. Ef einhver heldur að það þýði að ég hætti þá að drekka kaffi á meðan, þá er það nú misskilningur. Tedrykkjutímabil þýðir bara að ég man skyndilega að mér finnst te nokkuð gott, fer í Pipar og salt og kaupi mér pakka af Darjeeling FTGFOP (Finest Tippy Golden (man ekki fyrir hvað seinna F-ið stendur) Orange Pekoe), því að ég drekk ekki annað te ef það er á boðstólum, og svo hita ég mér almennilegt te einu sinni á dag þangað til búið er úr pakkanum. Þá gleymi ég öllu sem heitir tedrykkja, þangað til eftir svona sex - átta mánuði eða svo, þá man ég skyndilega aftur að mér finnst te nokkuð gott ...
Te-ið (ég verð að hafa bandstrik, teið er svo ljótt) sem ég er með núna er með glerbrotum. Þau eru til allrar hamingju bara í telaufunum og fara ekki í gegnum tesíuna. Þau voru ekki í pakkanum þegar ég keypti hann og ég er ekki að reyna að drepa sjálfa mig eða neinn annan. Þau lentu þarna bara.
Ég nota oftast grænan teketil úr leir, keyptan á leirkeraverkstæði í Prag. Ég keypti hann af því að það er ansi falleg upphleypt mynd af hesti á honum, sem nær þvert yfir lokið og niður á hliðarnar beggja vegna við stútinn. Hesturinn er með reistan makka og faxið virkar sem halda, maður tekur um það til að lyfta lokinu. Líklega hefur það verið Skagfirðingurinn í mér sem fékk mig til að kaupa þennan ketil en hann (Skagfirðingurinn alltsvo) er reyndar að verða álíka daufur og sjaldséður og tedrykkjumaðurinn. Þess utan hef ég ekki komið á hestbak í hátt í þrjátíu ár.
Mér þykir samt dálítið vænt um þennan ketil, en hann er því miður farinn að láta á sjá. Einhvern tíma brotnaði smástykki úr stútnum, sem mér tókst þó að líma, og svo kvarnaðist svolítið upp úr lokinu (ekki þó hrossinu) þegar ég missti hamar ofan á ketilinn fyrir nokkrum árum. Líklega er nokkuð sterkt í katlinum fyrst það varð ekki meira, því hamarinn datt beint ofan á ketillokið.