Ég var að enda við að steikja 192 kjúklingavængi. Eða reyndar bara 96 vængi en þar sem ég byrjaði á að höggva þá alla í tvennt (og vængendann af) eru bitarnir sem ég var að steikja helmingi fleiri. Vængendarnir 96 fara ekki í ruslið, heldur í frysti, því að það fæst ágætis kjúklingasoð af þeim.
Svo er ég búin að baka einhverja tugi af baguettebrauðum (nei, ekki frá grunni, þau eru frá La Baguette) en á eftir að skera þau í snittur og rista snitturnar í ofni. Þessi frönsku brauð eru svo þægilega stór - mér finnst baguette- og snittubrauð sem maður kaupir t.d. í bakaríum oft vera of sver fyrir snittur, þær verða of stórar. Það er líka betra að rista snitturnar svo að þær verði dálítið stökkar; ég var t.d. í móttöku í gær þar sem var boðið upp á fullt af girnilegum og góðum snittum en þær voru stórar og brauðið dálítið seigt (en bragðgott) svo að maður þurfti að bíta þær í sundur - voru 3-4 munnbitar hver - og það gat verið vesen, ekki síst þegar áleggið var kjötsneiðar eða annað slíkt. Helmingurinn af álegginu á einni sneiðinni datt á gólfið af því að brauðið var svo seigt. Þess vegna ætla ég að vera með litlar, stökkar snittur á morgun.
Og ef maður ristar þær er líka hægt að kalla þær crostini eða eitthvað álíka fínt. Jafnvel bruschetta. En helst ekki tapas. Mér finnst allt í einu eins og annarhver maður sé farinn að kalla snittur ,,tapas" athugasemdalaust. Ég var að fletta í gegnum allar mínar spænsku matreiðslubækur fyrir nokkrum dögum, einkum og sér í lagi tapas-kaflana og það get ég svarið að ég sá ekki nokkurs staðar snittu.