Sauðargæran er eitthvað að kveikja á perunni varðandi jólin, hann sagði að minnsta kosti fimmtán sinnum í röð ,,ég fæ jólagjöf". Það gæti orðið áhugavert að fylgjast með honum á aðfangadagskvöld.
Systir hans, sem yfirleitt er vonlaus þegar hún er spurð hvað hún vilji fá í jóla- eða afmælisgjöf, tók heldur betur við sér í gær og skrifaði óskalista upp á sjö blaðsíður. Hann er vandlega flokkaður: Tölvuleikir, með undirflokkunum Playstationleikir, PC-leikir og Nintendoleikir - þar stendur reyndar bara: Ekkert (fæ kannski lánað hjá Hjalta). Síðan koma vídeóspólur, DVD-diskar, geisladiskar, bækur, spil og Annað. Það er ýmislegt áhugavert undir þeim lið, þar á meðal trommusett. Ef ég væri ekki búin að ákveða hvað ég ætla að gefa henni, þá er aldrei að vita hvað ég mundi gera ...