Fyrir skömmu vorum við efnafræðistúdentinn að ræða um tilviljanir og smáatvik sem kannski breyta öllu lífi manns, oft án þess að maður átti sig á því; þið kannist við svona pælingar og það hafa verið skrifaðar margar sögur og gerðar margar bíómyndir sem byggja einmitt á þessu. Maður veit svosem sjaldnast af hverju maður missti hugsanlega, hvað hefði getað orðið ef önnur ákvörðun hefði verið tekin, og ef það gjörbreytti lífi manns að taka þennan strætó en ekki hinn fyrir 20 árum, þá er ólíklegt að maður hafi hugmynd um það. Og það er út af fyrir sig tilgangslaust að velta slíku fyrir sér.
Þrátt fyrir það er ég nokkuð viss um að það hefur haft mikil áhrif á líf mitt að ég skyldi skjótast inn í Bóksölu stúdenta í hádeginu dag einn fyrir 23 árum; gott ef það var ekki í desember. Ég kom auga á bók uppi í hillu, fór að skoða hana og heillaðist svo af henni að ég keypti hana þótt fjárráðin væru naum. Þessi bók var sjaldan fjarri náttborðinu mínu næstu árin og ég man enn að ég hugsaði með mér, þegar ég var búin að lesa hana í gegn í fyrsta sinn: Svona langar mig til að skrifa ef ég skrifa einhvern tíma um eitthvað. Þá bjóst ég þó ekki við að til þess kæmi og síst af öllu datt mér í hug að ég ætti eftir að skrifa matreiðslubækur.
Þessi bók var North Atlantic Seafood eftir Alan Davidson. Ég átti nokkrar matreiðslubækur fyrir, áreiðanlega fleiri en flestir jafnaldrar mínir, en þetta var fyrsta bókin sem ég kynntist sem var annað og miklu meira en uppskriftir; ég hafði einfaldlega ekki gert mér grein fyrir því að það væri hægt að skrifa svona um mat. Hún var stútfull af fróðleik af öllu tagi, en líka af skemmtilegum sögum og sérvisku. ,,The fruits of scholarship are easier to digest if sauced with wit,” sagði Alan. Ekki ætla ég að fara að líkja mínum verkum við hans á nokkurn hátt en það var samt þetta sem ég hafði að leiðarljósi þegar ég skrifaði Matarást. Alan var alltaf fyrirmynd mín, en það var þó ekki fyrr en rétt eftir útkomu Matarástar, fyrir rúmum fimm árum, sem ég kynntist þessum heillandi snillingi og sérvitringi. Hann hafði þá nýlokið við stórvirki sitt, The Oxford Companion to Food, og eins og ég sagði við hann: Mikið var ég fegin því að Matarást kom út á undan, annars hefði ég sennilega aldrei látið hana líta dagsins ljós.
Alan gerði mig hálfpartinn að skjólstæðingi sínum eftir að ég sendi honum eintak af bókinni. Hann bauð mér í heimsókn til sín á World’s End í Chelsea og þar dvaldist ég í góðu yfirlæti í viku. Hann eiginlega tilkynnti mér að ég ætti að skrifa bók um íslenska matargerð á ensku, kom mér í samband við bandarískan bókaútgefanda og studdi mig með ráðum og dáð. Hann tók mér með kostum og kynjum í hvert sinn sem ég kom til London eftir þetta og vildi ævinlega allt fyrir mig gera. Það eina sem ég gat gert í staðinn var að færa honum íslenskt skyr. Og þegar hann var sæmdur Erasmus-verðlaununum fyrir rúmum mánuði lét hann senda mér boðskort, svo að ég fékk tækifæri til að vera viðstödd þegar hann var heiðraður og votta honum virðingu mína og væntumþykju.
Það neistaði enn af Alan í ræðunni sem hann hélt í konungshöllinni í Amsterdam þegar hann veitti verðlaununum viðtöku, klæddur skærappelsínugulri silkiskyrtu og með laotísk snærisbönd um báða únliði. En hann var 79 ára gamall og farinn að heilsu. Núna um mánaðamótin veiktist hann af inflúensu og síðan lungnabólgu og lést á sjúkrahúsi í Chelsea skömmu síðar.
Hann var yndislegur maður.